Erlent

Flugvél EgyptAir lent á Kýpur eftir flugrán

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Flestum farþegum vélarinnar hefur verið hleypt frá borði.
Flestum farþegum vélarinnar hefur verið hleypt frá borði. vísir/afp
Flugstjóri flugvélar EgyptAir, á leið frá Alexandriu til Kairó, var þvingaður til að lenda vél sinni á Larnaca flugvelli á Kýpur eftir að flugræningi tók yfir vélina. Þetta kemur fram á Twitter-síðu EgyptAir.



Gripið var til þessara aðgerða eftir að einn farþegi upplýsti um að hann væri íklæddur sprengjubelti. Hann skipaði áhöfn vélarinnar að breyta um stefnu og lenda í Kýpur. Flugvélin er af gerðinni Airbus A320 og 81 farþegi er um borð.

Samkvæmt tísti frá EgyptAir hefur öllum farþegum verið hleypt frá borði að undanskildum fimm sem ekki eru egypskir. Áhöfn vélarinnar er enn í haldi um borð í vélinni.

Lögreglan á Kýpur segir að ræningjarnir hafi enn sem komið er ekki lagt fram neinar kröfur. Samningateymi er á leið á völlinn. Larnaca flugvelli hefur verið lokað og er flugum til vallarins beint annað á meðan gíslatökuástandið stendur yfir.

Uppfært 08.58:

„Þetta er ekki atvik sem tengist hryðjuverkasamtökum,“ segir Nicos Anastasiades, forseti Kýpur í samtali við fjölmiðla. Fimm áhafnarmeðlimum hefur verið hleypt frá borði.

Flugræninginn hefur nú sett fram þá kröfu, að fá að hitta fyrrverandi konu sína, sem er frá Kýpur. Nýjustu fregnir herma að verið sé að flytja konu mannsins á flugvöllinn.

Maðurinn er 27 ára og er nú verið að kanna hvort sprengjubeltið, sem hann bar um sig, sé raunverulegt eða eftirlíking.

Strax eftir lendingu sleppti hann öllum farþegum nema fjórum og áhöfninni. Hluta áhafnarinnar hefur nú verið sleppt samkvæmt fréttum frá AFP.

Uppfært 09:35:

Flugmálaráðherra Egyptalands segir að sjö manns sé enn haldið í gíslingu í vélinni: flugstjóri, flugmaður öryggisfulltrúi, flugfreyja og þrír farþegar.

Uppfært 10:28:

Kýpverskir fjölmiðlar segja flugræningjann nú hafa krafist þess að föngum í Egyptalandi verði sleppt. Þetta hefur þó ekki fengist staðfest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×