Erlent

Sjáðu Trump og Rubio takast á um hvort múslimar hati Bandaríkin

Bjarki Ármannsson skrifar
Rubio reyndi að svara fordómafullum ummælum Trump fullum hálsi, en gerði það ekki vel.
Rubio reyndi að svara fordómafullum ummælum Trump fullum hálsi, en gerði það ekki vel. Vísir/EPA
Þeir fjórir frambjóðendur sem enn sækjast eftir tilnefningu Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum tóku þátt í kappræðum í Miami í nótt. Ummæli Donald Trump, sem enn mælist með mest fylgi fjórmenninganna, um íslamstrú og viðbrögð við þeim vöktu hvað mesta athygli í kappræðunum.

Trump hafði látið þau ummæli falla í viðtali við CNN daginn áður að „íslam hatar okkur,“ og átti þá við Bandaríkin. Spurður út í það í kappræðunum í nótt hvort hann ætti við allan þann rúma einn og hálfa milljarð múslima sem býr um heim allan, svaraði Trump: „Ég á við ansi marga þeirra.“

Trump, sem áður hefur sagst ætla að meina múslimum aðgöngu að Bandaríkjunum verði hann forseti, uppskar talsvert lófaklapp fyrir svar sitt. Þingmaðurinn Marco Rubio reyndi að svara keppinauti sínum fullum hálsi en svarið var nokkuð aumkunarvert, líkt og bandaríska fréttaveitan Vox bendir á.

Vox hefur klippt myndband af svörum þeirra Trump og Rubio og bendir á að sá síðarnefndi virðist svara Trump á þann veg að ekki eigi að fordæma múslima vegna þess að múslimar gætu nýst Bandaríkjamönnum – meðal annars með því að snúa til kristinnar trúar eða ganga í bandaríska herinn.

Myndbandið má sjá hér að neðan. Gengið verður til atkvæða í fimm ríkjum þann 15. mars næstkomandi.


Tengdar fréttir

Líkir Trump við bæði Hitler og Mussolini

"Harðskeyttur málflutningur á borð við þennan hefur leitt til hrikalegra atburða í mannkynssögunni. Þannig komst Mussolini til valda, þannig komst Hitler til valda,“ sagði forseti Mexíkó, Enrique Pena Nieto, um málflutning Donalds Trump í viðtali við mexíkóska dagblaðið Excelsior í gær.

Vill ekki tryggja Trump eða Cruz sigurinn

Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóri í New York, segist ekki geta hugsað sér að framboð sitt yrði til þess að koma Donald Trump eða Ted Cruz í forsetaembætti Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×