Erlent

Vill ekki tryggja Trump eða Cruz sigurinn

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Michael Bloomberg óttast að framboð sitt geti gert illt verra.
Michael Bloomberg óttast að framboð sitt geti gert illt verra.
Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóri í New York, segist ekki geta hugsað sér að framboð sitt yrði til þess að koma Donald Trump eða Ted Cruz í forsetaembætti Bandaríkjanna.

Hann hefur því ákveðið að taka ekki þátt í forsetakosningum í Bandaríkjunum í haust. Hann sendi frá sér yfirlýsingu um þetta á mánudagskvöld.

„Eins og kosningabaráttan stendur núna, með repúblikana í meirihluta í báðum þingdeildum, þá eru góðar líkur á því að framboð mitt myndi verða til þess að Donald Trump eða öldungadeildarmaðurinn Ted Cruz yrðu kosnir,“ segir Bloomberg í yfirlýsingu sinni. „Þetta er ekki áhætta sem ég get tekið með góðri samvisku.”

Hann fordæmdi Trump harðlega, sagði hann hafa stundað kosningabaráttu sína af meiri sundrungargirni og lýðskrumi en menn hafi átt að venjast.

Trump þykir sigurstranglegastur af frambjóðendum Repúblikanaflokksins, þótt enn sé ekki útilokað að Ted Cruz eða jafnvel Marco Rubio hafi betur á endanum.

Bloomberg er einn af ríkustu mönnum heims. Hann er í áttunda sæti á nýjasta auðkýfingalista ­Forbes-tímaritsins og eru auðæfi hans þar metin á 40 milljarða dala, og slær hann þar Donald Trump við svo um munar því Trump er í 324. sæti á sama lista með 4,5 milljarða dala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×