Erlent

Sextán látnir eftir árás á vinsæla strönd

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fjöldi fólks var á ströndinni þegar árásin varð.
Fjöldi fólks var á ströndinni þegar árásin varð. vísir/afp
Fjórtán almennir borgarar og tveir hermenn eru látnir eftir árás vígamanna á vinsæla strönd á Fílabeinsströndinni. Þetta kemur fram hjá AFP.

Í frétt BBC um málið segir að árásin hafi verið gerð í bænum Grand Bassam sem er um fjörutíu kílómetra austur af efnahagslegri höfuðborg landsins, Abidjan. Ströndin er vinsæll áfangastaður bæði meðal heimamanna og ferðamanna. Sérsveitarmenn hafa verið sendir á staðinn en ekki er vitað um afdrif árásarmannanna.

Borgarastyrjöld braust út í landinu árið 2002 milli múslima í norðri og kristinna í suðurhluta landsins. Síðan þá hafa bardagar geisað með reglulegu millibili, nú síðast um í árslok 2010.

Þetta er ekki í fyrsta skipti á síðustu mánuðum sem vinsælir ferðamannastaðir eru skotmörk vígamanna. Tugir féllu í árás á hótel í Malí í nóvember og sömu sögu er að segja af árás sem átti sér stað í Ouagadougou, höfuðborg Búrkína Fasó, í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×