Innlent

Ísbjörn át íslenskan hest á Grænlandi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hvítabjörn. Áætlað er að um 4.000 ísbirnir haldi til á Grænlandi af þeim 25.000-30.000 sem lifa á norðurslóðum.
Hvítabjörn. Áætlað er að um 4.000 ísbirnir haldi til á Grænlandi af þeim 25.000-30.000 sem lifa á norðurslóðum.
Hvítabjörn sem drap íslenskan hest á Suður-Grænlandi í fyrradag var sjálfur felldur en björninn var þá að éta hestinn. Grænlenski fréttamiðilinn KNR greindi frá málinu í gær og staðfestir lögreglan að hvítabjörninn hafi verið skotinn.

Björninn hafði þá ráðist á hest um hálfan kílómetra frá sauðfjárbýli skammt frá bænum Tasiusaq syðst á Grænlandi. Sauðfjárbóndinn Malik Frederiksen segist í fyrstu hafa reynt að hræða björninn burt en hann hafi þá ráðist á einn af níu hestum hans, drepið hann og étið.

Sauðfjárbóndinn segir að ekki hafi verið um annað að ræða en að skjóta björninn. Annars hefði verið hætta á að hann sneri aftur og það hefði skapað hættu fyrir börn og annað fólk, sem og önnur húsdýr. Veiðimálastofnun Grænlands hefur samþykkt að skilgreina ísbjarnardráp bóndans sem nauðvörn og því hafi það verið réttlætanlegt.

Aðeins eru um tvöhundruð hross á Grænlandi og þau eru öll ættuð frá Íslandi. Ekki er til sérstakur grænlenskur hrossastofn en Grænlendingar heimila hins vegar innflutning á hestum en eingöngu frá Íslandi.

Hér má sjá myndir af hvítabirninum og bóndanum sem felldi hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×