Erlent

Tugir særðir og 19 látnir í árás talibana

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Námsmenn í Karachi mótmæla árásinni á háskólann í Charsadda.
Námsmenn í Karachi mótmæla árásinni á háskólann í Charsadda. Fréttablaðið/EPA
Að minnsta kosti 19 manns létu lífið og tugir særðust í árás vopnaðra manna á Bacha Khan-háskólann í Charsadda í Pakistan í gær.

Fjórir árásarmenn létu síðan lífið í nokkurra klukkustunda löngum skotbardaga við pakistanska herinn, sem mætti fljótt á svæðið.

Óljóst var í gær hverjir stóðu að árásinni. Yfirmaður í pakistönsku talibanahreyfingunni Tehrik e Taliban sagði AFP-fréttastofunni að árásin væri gerð að undirlagi hreyfingarinnar. Hins vegar bar talsmaður hreyfingarinnar það til baka nokkru síðar.

Liðsmenn hreyfingarinnar gerðu árið 2014 árás á skóla í Peshawar, þar sem 130 nemendur létu lífið.

Aðeins fimmtíu kílómetrar eru á milli borganna Peshawar og Charsadda, en þær eru í norðvesturhluta Pakistans, skammt frá landamærum Afganistans. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×