Erlent

Hríðarbylur skellur á austurströnd Bandaríkjanna

Atli Ísleifsson skrifar
Lögreglumenn standa fyrir framan byggingu hæstaréttar í Washington fyrr í dag.
Lögreglumenn standa fyrir framan byggingu hæstaréttar í Washington fyrr í dag. Vísir/AFP
Mikill hríðarbylur hefur nú skollið á austurströnd Bandaríkjanna og er búist við gríðarlegri ofankomu í meðal annars í höfuðborginni Washington og New York.

Bandarísk yfirvöld hafa varað tugi milljóna íbúa austurstrandarinnar við að bylurinn kunni víðs vegar að lama allt samfélagið. Í frétt BBC kemur fram að búist sé við að rúmlega 70 sentimetra snjór komi til með að falla á næstu klukkustundum.

Bylurinn hefur haft mikil áhrif á samgöngur og þannig er búið að aflýsa þúsundum flugferða og hafa íbúar verið hvattir til að halda kyrru fyrir heima.

Átta manns hafa enn sem komið er látið lífið í óveðrinu sem hefur haft áhrif allt frá Arkansas í suðri og til Massachusetts í norðaustri.

Langar biðraðir hafa myndast í verslunum þar sem fólk hefur verið að birgja sig upp af mat og fleiri nauðsynjum.

Búist er við að ástandið verði einna verst í höfuðborginni Washington þar sem borgarstjórinn Muriel Bowser hefur varað við að met frá árinu 1922 kunni að verða slegið, en þá féllu 71 sentimetrar af snjó á tveimur dögum í borginni.

Búið er að lýsa yfir neyðarástandi í ríkjunum Tennessee, Norður-Karólínu, Virginíu, Maryland, Pennsylvaníu og í hluta af nokkrum ríkjum til viðbótar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×