Erlent

Rebelo De Sousa er nýr forseti Portúgals

Atli Ísleifsson skrifar
Marcelo Rebelo de Sousa er jafnan kallaður Prófessor Marcelo af stuðningsmönnum sínum.
Marcelo Rebelo de Sousa er jafnan kallaður Prófessor Marcelo af stuðningsmönnum sínum. Vísir/AFP
Lagaprófessorinn og íhaldsmaðurinn Marcelo Rebelo de Sousa var í dag kjörinn nýr forseti Portúgals.

AFP greinir frá því að þegar búið er að telja 97 prósent atkvæða hafi de Sousa hlotið um 52 prósent atkvæða, en helsti keppinautur hans, Antonio da Novoa, 22 prósent. Tíu manns voru í framboði.

Þar sem frambjóðandinn hlaut hreinan meirihluta er ekki þörf á annari umferð.

Líkt og á Íslandi er forsetaembættið í Portúgal fyrst og fremst táknræn staða þjóðhöfðingja, en forseti hefur þó vald til þess að leysa upp þingið komi upp stjórnarkrísa.

Hinn 67 ára Rebelo de Sousa, eða „Professor Marcelo“ líkt og hann er oft kallaður, er vinsæll en umdeildur stjórnmálaskýrandi með eigin sjónvarpsþátt.

Hann hefur heitið því að gera hvað hann getur til að tryggja stöðugleika í landinu en þar kom upp stjórnarkrísa í nóvember þegar nýkjörinn meirihluti hægrimanna sprakk og samfylking vinstri flokka tók við völdum.

Rebelo de Sousa mun taka við embættinu af íhaldsmanninum Anibal Cavaco Silva sem setið hefur tvö fimm ára kjörtímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×