Innlent

Yfirmaður fíkniefnadeildar fundaði með innanríkisráðherra

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Aldís Hilmarsdóttir og Sigríður Björk Guðjónsdóttir.
Aldís Hilmarsdóttir og Sigríður Björk Guðjónsdóttir. vísir/heiða/stefán
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, og Aldís Hilmarsdóttir, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins, funduðu í dag. Þetta staðfestir Aldís í samtali við Vísi en vill ekki upplýsa um efni fundarins. Samkvæmt frétt á vef Ríkisútvarpsins voru samskipti Aldísar og Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, til umræðu.

„Ég óskaði sjálf eftir fundinum en ég bað um hann skömmu fyrir jól. Hann frestaðist vegna fría og anna,“ segir Aldís. Hún telur að það sem fram á fundinum sé ekki fjölmiðlaefni og ætlar ekki að upplýsa um það.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Sigríður Björk viðrað þá skoðun sína að færa Aldísi úr starfi sem yfirmaður fíkniefnadeildar og finna henni annað hlutverk. Samkvæmt frétt á vef Fréttatímans eru Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri, og Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn, andvígir því að Aldís verði færð úr núverandi stöðu sinni.

„Ég veit ekkert um fundinn eða hvað fór þar fram og tjái mig ekki um hann,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir í samtali við Vísi. „Það liggur hins vegar í hlutarins eðli að verið er að fara yfir stöðu fíkniefnadeildarinnar og skoða skipulag innan lögreglunnar.“ Sigríður Björk hefur áður sagt að verið sé að endurskipuleggja innra skipulag en það gerði hún í viðtali í Íslandi í dag fyrir tveimur dögum.

Líkt og fjallað hefur verið um hafa mál tveggja starfsmanna fíkniefnadeildarinnar verið til skoðunar að undanförnu. Í vikunni var tilkynnt um að ríkissaksóknari hefði mál annars mannsins hjá sér en héraðssaksóknari fer með hitt.

Ekki náðist í Ólöfu Nordal við vinnslu fréttarinnar.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.