Í Fréttablaðinu á laugardag benti Karl Steinar Valsson, fyrrverandi yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar og undirmaður Jóns, á yfirmenn sína, þá Jón og Friðrik Smára Björgvinsson, og sagði að hann hefði komið til þeirra greinargerð í kjölfar þess að gerðar voru athugasmdir við störf lögreglufulltrúans.

Engin formleg rannsókn hefur því farið fram á málefnum lögreglufulltrúans þrátt fyrir að samstarfsfélagar hafi í áraraðir reynt að koma fram ábendingum um óeðlileg samskipti við brotamenn. Maðurinn hefur á nokkurra mánaða tímabili verið færður þrisvar sinnum til í starfi.
Fulltrúinn gegnir ekki lengur yfirmannsstöðu í fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu heldur starfar nú í tæknideild. Eitt af hans síðustu verkefnum sem yfirmaður í fíkniefnadeild var að stýra aðgerðum á vettvangi í tálbeituaðgerð sem fór út um þúfur við Hótel Frón í apríl í fyrra.
Þá gegndi hann raunar yfirmannsstöðu í bæði fíkniefna- og upplýsingadeild sem er gagnrýnisvert fyrirkomulag sem þekkist ekki í nágrannalöndum okkar. Þannig hafði hann allar upplýsingar um uppljóstrara og gat að sama skapi tekið ákvarðanir er sneru að rannsóknum innan fíkniefnadeildar.