Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar eiga 62 ríkustu einstaklingar heimsins jafnmikið nú og helmingur mannkyns sem telur 3,6 milljarða manna.
Í rannsókninni kemur fram að þeir fátækustu eru að verða fátækari en þeir allra ríkustu auka við eignir sínar.
Þannig hefur auður í heiminum aukist um 133 billjónir bandaríkjadala frá aldamótum en eitt prósent þeirra sem eiga mest fyrir hafa tekið til sín 68 billjónir dala af þessari aukningu.

Skýrsla Oxfam um rannsóknina ber heitið „Hagkerfi fyrir eina prósentið.“ Í henni er rakið hvernig þróunin í auðsöfnun í heiminum hefur verið síðustu ár en tölurnar sýna að auðurinn er sífellt að safnast á hendur færri einstaklinga.
Þannig áttu 388 manns jafnmikið árið 2010 og helmingur mannkyns. Árið 2014 var fjöldi þeirra ríkustu á móti þeim fátækustu kominn niður í 80 og þeir eru nú eins og áður segir 62 talsins.