Erlent

Ekki fengið að sjá geysivinsæla þætti um sjálfan sig

Bjarki Ármannsson skrifar
Mál Steven Avery hefur vakið mikla athygli eftir að þættirnir Making a Murderer voru frumsýndir á Netflix í desember síðastliðnum.
Mál Steven Avery hefur vakið mikla athygli eftir að þættirnir Making a Murderer voru frumsýndir á Netflix í desember síðastliðnum. Mynd/Netflix
Bandaríkjamaðurinn Steven Avery, dómsmál hvers eru umfjöllunarefni geysivinsælu heimildaþáttaraðarinnar Making a Murderer, hefur sjálfur ekki séð þættina. Frá þessu er meðal annars greint á vef Business Insider í Bretlandi. Þættirnir fjalla um það þegar Avery og frændi hans, Brendan Dassey, hlutu dóm fyrir morðið á ljósmyndaranum Teresa Halbach árið 2005.

Laura Ricciardi, leikstjóri Making a Murderer, sagði á blaðamannafundi um helgina að Avery hafi lagt fram beiðni um að fá að sjá þættina en að beiðninni hafi verið hafnað.

Þættirnir voru frumsýndir á Netflix fyrir um mánuði og hafa vakið gríðarmikla athygli innan Bandaríkjanna sem utan. Í þættinum er fjallað ítarlega um málið yfir Avery og rök færð fyrir því að hann hafi verið ranglega sakfelldur fyrir morðið á Halbach. Hann afplánar nú lífstíðardóm í fangelsi í Wisconsin-ríki.

Sjá einnig: Obama hefur ekki vald til að náða Steven Avery

Ricciardi segir að teymið á bak við Making a Murderer hafi haft samband við Avery frá því að þættirnir voru frumsýndir og að viðtöl þeirra við hann gætu mögulega nýst í framhaldsþáttaröð um málið. Hún segir að þó Avery hafi ekki fengið að sjá þættina um sjálfan sig, sé honum kunnugt um að þeir hafi vakið mikið umtal.

Fjölmargir hafa skorað á bæði Bandaríkjaforseta og ríkisstjóra Wisconsin að náða Avery frá því að þættirnir slógu í gegn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×