Erlent

Obama hefur ekki vald til að náða Steven Avery

Birgir Olgeirsson skrifar
Mál Steven Avery hefur vakið mikla athygli eftir að þættirnir Making a Murderer voru frumsýndir á Netflix í desember síðastliðnum.
Mál Steven Avery hefur vakið mikla athygli eftir að þættirnir Making a Murderer voru frumsýndir á Netflix í desember síðastliðnum. Mynd/Netflix
Embætti forseta Bandaríkjanna hefur brugðist opinberlega við áskoruninni um að náða þá Steven Avery og frænda hans Brendan Dassey, sem eru umfjöllunarefni heimildaþáttaraðarinnar Making a Murderer.

Þáttaröðin var frumsýnd á Netflix 18. desember síðastliðinn og var hrundið af stað undirskriftasöfnun tveimur dögum síðar á vef embættisins, We the People, þar sem skorað var á forsetann, Barack Obama, að náða Steven Avery og frænda hans.

Reglurnar um þessa síðu eru þær að ef áskorun nær yfir 100 þúsund undirskriftir innan tilsetts tímaramma þá verður embættið að bregðast við henni á einhvern hátt.

Í svari frá embættinu vegna þessarar áskorunar segir að frændurnir séu fangar Wisconsin-ríkis Bandaríkjanna og því geti forsetinn ekki náðað þá. Þeir yrðu að fá náðun frá yfirvöldum Wisconsin-ríkis en einnig hefur verið skorað á ríkisstjóra þess ríkis að gera það.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.vísir/getty
Í svarinu er farið nokkuð ítarlega yfir þau takmörk sem forsetanum eru sett varðandi það vald að geta náðað fanga og þá eru einnig taldar upp allar þær tilraunir sem Obama hefur gert til að breyta réttarfarskerfi Bandaríkjanna og að fækka föngum.

„Þó þetta mál sé utan valdsviðs hans þá er forsetinn staðráðinn í því að endurvekja trú almennings á sanngirni í réttarkerfinu,“ segir í svarinu. Þar kemur einnig fram að í 184 tilvikum hefur Barack Obama mildað refsingar fanga, sem er oftar en fimm síðustu forsetar gerðu til samans, og náðað 66 í sinni valdatíð.

Making a Murderer telur tíu þætti og var þáttaröðin mynduð á tíu ára tímabili. Hún segir frá útistöðum Avery við lögin. Hann var ranglega sakfelldur árið 1985 og sendur í fangelsi fyrir nauðgun en hreinsaður af þeim ásökunum árið 2003 eftir að lífsýni sýndu fram á sakleysi hans og í kjölfarið sleppt úr fangelsi.

Árið 2005 var hann fundinn sekur um að hafa myrt ljósmyndarann Teresa Halbach og afplánar nú lífstíðarfangelsisdóm. Frændi hans, Brendan Dassey, var fundinn sekur um aðild að morðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×