Erlent

Rúmlega 100 þúsund hafa skorað á Hvíta húsið að náða Steven Avery

Birgir Olgeirsson skrifar
Mál Steven Avery hefur vakið mikla athygli eftir að þættirnir Making a Murderer voru frumsýndir á Netflix í desember síðastliðnum.
Mál Steven Avery hefur vakið mikla athygli eftir að þættirnir Making a Murderer voru frumsýndir á Netflix í desember síðastliðnum. Mynd/Netflix
Rúmlega 114 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun til embættis forseta Bandaríkjanna um að náða þá Steven Avery og frænda hans Brendan Dassey sem eru umfjöllunarefni heimildarþáttaraðarinnar Making a Murderer.

Þáttaröðin var frumsýnd á Netflix 18. desember síðastliðinn og var undirskriftasöfnuninni hrundið af stað á undirvef embættisins sem nefnist We The People tveimur dögum síðar, þar sem bandarískir borgarar geta komið skilaboðum og áskorunum til stjórnvalda.

Samkvæmt reglum sem settar eru um undirskriftasöfnun á þessari síðu ber embættinu að bregðast við þeim áskorunum sem ná yfir 100 þúsund undirskriftir innan ákveðins tímaramma, fresturinn á þessari áskorun til að ná 100 þúsund undirskriftum rennur út 19. janúar næstkomandi.

Í áskoruninni til embættisins segir að samkvæmt þeim upplýsingum sem koma fram í þessari þáttaröð þá brást bandaríska dómskerfið þeim Avery og Dassey. „Sem rústaði lífi þeirra algjörlega,“ segir í áskoruninni. Er því haldið fram að embætti lögreglustjórans í Manitowoc-sýslu hafi beitt óviðeigandi aðferðum til að ná fram sakfellingu í málinu.

„Þetta er svartur blettur á réttarkerfinu í heild, og ætti að gangast við því, og í leiðinni veita þessum mönnum möguleika á að lifa eins hefðbundnu lífi og hægt er.“



Þáttaröðin telur tíu þætti og var mynduð á tíu ára tímabili. Hún segir frá útistöðum Avery við lögin. Hann var ranglega sakfelldur árið 1985 og sendur í fangelsi fyrir nauðgun en hreinsaður af þeim ásökunum árið 2003 eftir að lífsýni sýndu fram á sakleysi hans og í kjölfarið sleppt úr fangelsi. 

Árið 2005 var hann fundinn sekur um að hafa myrt ljósmyndarann Teresa Halbach og afplánar nú lífstíðarfangelsisdóm. Frændi hans, Brendan Dassey, var fundinn sekur um aðild að morðinu.

Þá hefur einnig verið safnað undirskriftum við áskorun til ríkisstjóra WisconsinScott Walker, þar sem hann er beðinn um að frelsa Steven Avery. Þrjú hundruð og níu þúsund manns hafa skrifað undir þá áskorun. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×