Erlent

Hinn smávaxni líklega framseldur til Bandaríkjanna

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Saksóknari í Mexíkó segir að yfirvöld þar í landi hafi í hyggju að framselja Joaquin „El Chapo“ Guzman til Bandaríkjanna. „Hinn smávaxni“ komst í heimsfréttirnar fyrir hálfu ári er hann gróf sig út úr öryggisfangelsi í heimalandinu.

Bandaríkin óskuðu eftir framsali Guzman, sem kallaður hefur verið hinn smávaxni, árið 2014 en þeim beiðnum var hafnað. Ástæðan fyrir því að fallist verður á beiðnina núna er að mexíkósk yfirvöld telja fullreynt að halda honum innan veggja þarlendra fangelsa.

Guzman slapp úr Almoloya de Juarez fangelsinu í júlí í gegnum mílulöng göng sem grafin höfðu verið úr fangaklefa hans. Göngin þóttu hin fullkomnustu en í þeim var meðal annars loftræstikerfi. Árið 2001 slapp hann úr öðru fangelsi og er talið að það hafi gerst eftir að hann mútaði fangavörðum til að koma sér fyrir meðal óhreina taus fanganna.

Ekki er ljóst hvenær framsalsbeiðnin verður tekin fyrir en Guzman hefur þrjá daga til að mótmæla ásökunum gegn sér. Í kjölfarið fylgir tuttugu daga frestur til þess sýna fram á að varnir hans séu sannar.

„Hinn smávaxni“ er tíundi ríkasti maður Mexíkó og eiturlyfjaveldi hans er það stærsta sem sögur fara af. Hann hefur iðulega ratað á lista Forbes yfir 100 áhrifamestu menn í heiminum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×