Búið er að staðsetja fjölda fjöldagrafa í Írak og Sýrlandi. Þúsundir líka eru talin liggja í gröfunum en einungis nokkrar þeirra hafa verið rannsakaðar. Einhverjar eru enn á yfirráðasvæði Íslamska ríkisins en bæði er þörf á fjármagni og pólitískum vilja til að rannsaka grafirnar.
Vígamenn Íslamska ríkisins frömdu fjölmörg ódæði gegn minnihlutahópum eins og Jasídum og öðrum sem hyllast ekki sömu trúar og þeir í skyndisókn þeirra í Írak sumarið 2014 og á næstu mánuðum.
Blaðamenn AP fréttaveitunnar hafa fundið 72 fjöldagrafir í Írak og Sýrlandi með mikilli rannsóknarvinnu og ítarlegum viðtölum. Rannsóknin hefur varpað nýju ljósi á umfangsmikil ódæði vígamanna ISIS í löndunum tveimur. Eitt versta ódæði ISIS var þegar vígamenn myrtu rúmlega 1.500 unga sjíta í Speicher herstöðinni í Írak.
Þá myrtu vígamenn ISIS 600 fanga í Badoush fangelsinu í júní 2014.
Áætlað er að um þúsund meðlimir Sheitaat ættbálksins liggi í einni fjöldagröf í austurhluta Sýrlands. Meðlimir ættbálksins veittu vígamönnum ISIS umtalsverða mótspyrnu í júlí í fyrra og voru fjölmargir myrtir og aðrir voru reknir úr þorpum sínum og bæjum.
Búist er við því að fleiri fjöldagrafir muni finnast þegar ISIS-liðar tapa frekari landsvæðum. Nú þegar er talið að allt að 15 þúsund lík liggi í fjöldagröfum á svæðum sem ISIS-liðar hafa verið reknir frá.
Sjá einnig: Raunir Jasída: Kynlífsþrælkun, þjóðarmorð og misþyrming
Búið er að staðsetja fjölmargar grafir en lang flestar þeirra hafa ekki verið rannsakaðar. Skortur er á bæði fjármagni og pólitískum vilja til þess að rannsakar grafirnar en íbúum hefur verið bannað að grafa þær upp og ná í fjölskyldumeðlimi sína. Þá eru fjöldagrafir einnig á svæðum sem eru talin mjög hættuleg.
Allt að 15 þúsund lík liggja í ómerktum fjöldagröfum
Samúel Karl Ólason skrifar
