Atli, sem er lögfræðingur að mennt, var dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir morð árið 2001 og var í kjölfarið sviptur lögmannsréttindum sínum, og hefur því ekki heimild til þess að reka stofuna, að mati félagsins. Samkvæmt fyrirtækjaskrá er Atli skráður eini eigandi Versus lögmanna, en upplýsingarnar eru frá árinu 2014.
Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélagsins, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað, en heimildir fréttastofu herma að félagið hafi krafist þess að allir lögmenn Versus verði sviptir réttindum sínum vegna málsins.

Lögmannafélagið sendi tölvupóst á félagsmenn sína í vikunni þar sem þeir eru hvattir til þess að gæta að því að kröfur um eignarhald, stjórnarsetu og framkvæmdastjórn séu uppfylltar.
Atli Helgason var dæmdur fyrir morðið á Einari Erni Birgissyni árið 2001. Hann fékk uppreist æru um síðastliðin áramót og hugðist þá sækjast eftir lögmannsréttindum sínum á ný. Hann hætti hins vegar við það sama dag og málflutningur í málinu átti að fara fram, en ríkissaksóknari hafði lagst gegn því að Atli fengi réttindin aftur.
Atli sagði í bókun sem hann lagði fram að starfsréttindi sín sem lögmaður væru minna virði en þær þjáningar aðstandenda sem umfjöllun um málið hefði endurvakið. Hann hafi því afráðið að afturkalla ósk sína um niðurfellingu réttindasviptingu.