Erlent

Tveir lögreglumenn skotnir til bana

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Mikill viðbúnaður var í Palm Springs í gær.
Mikill viðbúnaður var í Palm Springs í gær. vísir/epa
Tveir lögreglumenn voru skotnir til bana og einn særðist í skothríð í heimahúsi í Palm Springs í Kaliforníu í gærkvöld. Lögreglan var kölluð út eftir að tilkynnt hafði verið um heimilisofbeldi í húsinu en maðurinn neitaði hins vegar að hlýða fyrirmælum lögreglu og hóf þess í stað skothríð.

Byssumanninum tókst að flýja en var handtekinn skömmu síðar eftir umfangsmikla leit. Mikill viðbúnaður var í hverfinu eftir skotárásina.

Hverfið var girt af og íbúar beðnir um að halda sig innandyra. Nágrannar segja manninn aldrei hafa verið til vandræða, en að sögn lögreglu hefur hann einu sinni verið handtekinn og í kjölfarið þurft að bera ökklaband.

Palm Springs er afar friðsæll staður og eru íbúar slegnir eftir atburði kvöldsins. Lögð hafa verið blóm, kort og kerti fyrir utan höfuðstöðvar lögreglunnar og þá mættu mörg hundruð manns í athöfn til minningar um lögreglumennina tvo.

Annar lögreglumaðurinn hét Lesley Zerebny og var 27 ára. Zerebny var nýkominn úr fæðingarorlofi eftir að hafa eignast dóttur fyrir fjórum mánuðum, en hún hafði starfað hjá lögreglunni í um eitt og hálft ár. Hinn lögreglumaðurinn, Jose Gilbert Vega, var átta barna faðir og hafði starfað hjá lögreglunni í 35 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×