Fótbolti

Vandræðagemsinn Aurier dæmdur í tveggja mánaða fangelsi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aurier er duglegur að koma sér í fréttirnar fyrir atvik utan vallar.
Aurier er duglegur að koma sér í fréttirnar fyrir atvik utan vallar. vísir/getty
Serge Aurier, leikmaður Paris Saint-Germain, hefur verið dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir að ráðast á lögreglumann.

Atvikið átti sér stað á skemmtistað í París í maí á þessu ári. Auk fangelsisdómsins þarf Aurier að greiða lögreglumanninum 600 evrur í skaðabætur. Hann þarf einnig að borga málskostnað upp á 1500 evrur.

Dómurinn kemur ekki í veg fyrir að Aurier geti spilað með PSG gegn Ludogorets í Meistaradeild Evrópu á miðvikudaginn.

Búist er við því að Fílbeinsstrendingurinn áfrýji dómnum en hann neitaði sök í málinu og sagðist vera fórnarlamb lögregluofbeldis.

Undanfarnir mánuðir hafa verið stormasamir hjá Aurier en hann kom sér í klandur í febrúar þegar hann móðgaði þáverandi knattspyrnustjóra PSG, Laurent Blanc, og leikmenn liðsins á samfélagsmiðlinum Periscope.

Aurier var rekinn af velli í síðasta deildarleik PSG á föstudaginn. Frönsku meistararnir töpuðu þá óvænt fyrir Toulouse.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×