Herskáir íslamskir öfgamenn réðust samtímis á nokkrar egypskar herstöðvar í dag á Sínaí-skaga en í árásunum létust að minnsta kosti fimmtíu hermenn. Þessar árásir sem virðast þaulskipulagðar koma nú degi eftir að Abdel Fattah el- Sisi, forseti Egyptalands, hét því að leggja meira í baráttuna gegn íslamskum öfgamönnum.
Umfang og kraftur árásanna undirstrikar þrautseigju og þróaða áætlanagerð fylkingarinnar sem hefur barist við Egypta í nokkur ár en eflt uppreisnarheri sína á síðustu tveimur árum að því er fram kemur á vefsíðu Time. Undirsamtök ISIS í Egyptalandi hafa sagst bera ábyrgð á árásunum í dag. Segjast samtökin hafa gert fimmtán her- og lögreglustöðvar að skotmarki sínu og undirbúið þrjár sjálfsmorðssprengjuárásir. Staðhæfing samtakanna um ábyrgð þeirra á verknaðinum var birt á Facebook síðu þeirra.
Eftir árásirnar hófust bardagar á milli egypska hersins og uppreisnarmanna.
Í fyrradag var Hisham Barakat, ríkissaksóknari Egypta, ráðinn af dögum í höfuðborginni Kaíró.
Fimmtíu hermenn létust í úthugsaðri árás ISIS í Egyptalandi
Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
