Erlent

Kallinn er að kúka

Jakob Bjarnar skrifar
Ef myndin prentast vel má dunda sér við að finna manninn sem ekki þótti húsum hæfur í sölum drottningar.
Ef myndin prentast vel má dunda sér við að finna manninn sem ekki þótti húsum hæfur í sölum drottningar.
Elísabet Englandsdrotting á í fórum sínum margan dýrgripinn, þar á meðal meistaraverk eftir hollenska listmálarann Isack van Ostade. Verkið leyndi á sér eins og kom í ljós á dögunum.

Þegar málverkið var sent í hreinsun spratt fram maður sem var að sinna kalli náttúrunnar. Kallinn er að kúka, svo það sé nú bara sagt hreint út. Svo virðist sem þetta hafi ekki þótt tilhlýðilegt hátterni á málverki sem prýddi sali drottningar, og þá talið trufla siðprúða aðalsmenn og konungborna. Því hefur einhver tekið sig til og málað yfir kallinn. Leiddar hafa verið líkur að því að það hafi gerst í tíð Edwards VII.

Sunday Times greinir frá málinu en það voru sérfræðingar hjá Royal Collection Trust sem uppgötvuðu manninn, sem hafði lengi látið lítið fyrir sér fara á verkinu A Village Fair with a Church Behind. Verkið er málað 1643 en komst í eigu konungsfjölskyldunnar þegar George IV prins af Wales keypti það árið 1810.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×