Erlent

Trump enn efstur eftir umdeild ummæli

þórgnýr einar albertsson skrifar
Þrátt fyrir umdeild ummæli sækir Trump í sig veðrið í kosningabaráttunni vestanhafs.
Þrátt fyrir umdeild ummæli sækir Trump í sig veðrið í kosningabaráttunni vestanhafs. nordicphotos/getty
Auðjöfurinn Donald Trump mælist enn með mest fylgi meðal þeirra sem sækjast eftir útnefningu Repúblikanaflokksins til forsetaframboðs í Bandaríkjunum. Í nýrri könnun Suffolk University og USA Today kemur í ljós að Donald Trump nýtur sautján prósenta fylgis. Á hæla Trump koma Jeb Bush, fyrrverandi ríkisstjóri Flórída, með fjórtán prósent, og Scott Walker, ríkisstjóri Wisconsin, með átta prósent.

Trump hefur undanfarið farið mikinn í umræðu um ólöglega innflytjendur sem hann hefur sagt færa glæpi til Bandaríkjanna. Um síðustu helgi hitti hann til að mynda fjölskyldur þeirra sem ólöglegir innflytjendur frá Mexíkó hafa myrt. Útspil Trumps hefur vakið miklar deilur í Bandaríkjunum. Þó hefur það skilað honum miklu fylgi.

Fylgi Trumps kemur sér vel þar sem fyrstu kappræður forsetaframbjóðendaefna repúblíkana verða 6. ágúst næstkomandi og munu þar tíu af frambjóðendum repúblíkana, sem nú eru orðnir fimmtán talsins, etja kappi.

Þeir tíu sem njóta mesta fylgisins í meðaltali fimm skoðanakannana fá að stíga á stóra sviðið í ágúst í kappræðum sem fréttastofa Fox News heldur í samstarfi við internetrisann Facebook í Cleveland, stærstu borg Ohio.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×