Erlent

Hinir ríkustu tapa milljörðum

Þórgnýr einar Albertsson skrifar
Jack Ma, eigandi Alibaba, hefur miklu tapað í kínverska hruninu.
Jack Ma, eigandi Alibaba, hefur miklu tapað í kínverska hruninu. nordicphotos/afp
Þeir 205 Kínverjar sem í mars síðastliðnum áttu milljarð Bandaríkjadala eða meira hafa tapað sem nemur 26 þúsund milljörðum króna síðasta mánuðinn, eða 195 milljörðum Bandaríkjadala. Tapið má rekja til hruns fjármálamarkaða í Kína.

Samkvæmt útreikningum Forbes áttu þessir ríkustu menn Kína samtals um 75.331 milljarð króna fyrir hrunið. Árið áður áttu þeir 26.666 milljörðum minna, en ljóst er að hagnaður síðasta árs hefur þurrkast upp við hrunið.

Fasteignajöfurinn Wang Jianlin, ríkasti maður Kína, hefur tapað um þúsund milljörðum. Eigandi vefverslunarinnar Alibaba, Jack Ma, hefur hins vegar tapað um 500 milljörðum.

Einungis fimm af þeim 205 Kínverjum sem eiga milljarð Bandaríkjadala eða meira hafa ekki tapað peningum í hruninu. Sá eini sem hefur hagnast síðasta mánuðinn er Ma Jianrong, sem hefur auðgast á prjónuðum fötum.

Kínverski hlutabréfamarkaðurinn hefur fallið mikið frá því í júní. Markaðir hafa á þeim tíma fallið um nærri þriðjung. Fall markaðanna nemur um þrjú þúsund milljörðum Bandaríkjadala sem samsvarar 402 þúsund milljörðum króna.

Til samanburðar nema títt ræddar heildarskuldir Grikkja um 47.139 milljörðum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×