Að minnsta kosti tuttugu létust og fjölmargir særðust þegar íslömsku hryðjuverkasamtökin al-Shabaab réðust á hótel í miðborg sómölsku höfuðborgarinnar Mogadishu fyrr í dag. Aðstoðarforsætisráðherra landsins er á meðal hinna særðu. BBC greinir frá þessu.
Fréttir hafa borist af sprengjum og skothríð á hótelinu sem vinsælt er á meðal stjórnmálamanna í landinu. Að sögn lögreglu voru fjölmargir ráðherrar og þingmenn staddir á Central hótelinu og særðust meðal annars aðstoðarforsætisráðherra og samgönguráðherra landsins í árásinni.
Lögreglustjórinn Farah Abdullahi segir í samtali við Reuters að lögreglumenn hafi heyrt skothríð innan úr hótelinu. „Árásarmennirnir hafa því miður ráðist inn í hótelið.“
AFP greinir frá því að svo virðist sem bílsprengja hafi fyrst sprungið fyrir utan hótelið og í kjölfar þess hafi sjálfsvígssprengjumenn sprengt sjálfa sig í loft upp inni á hótelinu, auk þess að árásarmenn hafi hafið þar skothríð.
Misvísandi fregnir hafa borist af því hve margir hafi látist í árásinni. Að sögn AP létust að minnsta kosti tveir, en Reuters segir að þeir hafi verið sex. BBC greinir frá því að allt að tuttugu hafi látist, þar á meðal fjöldi þingmanna.
Sómalskir ráðherrar særðust í árás
Atli Ísleifsson skrifar
