Fótbolti

Hólmbert tryggði Íslandi jafntefli í Orlando

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði sitt fyrsta landsliðsmark.
Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði sitt fyrsta landsliðsmark. vísir/daníel
Ísland og Kanada skildu jöfn, 1-1, í seinni vináttuleik liðanna sem fram fór í Orlando í Flórída í kvöld, en fyrri leikinn á föstudaginn var vann Ísland, 2-1.

Dwayne De Rosario, fjórfaldur MLS-meistari með San Jose og Houston, kom Kanadamönnum yfir með marki úr vítaspyrnu á 30. mínútu, 1-0. Haukur Heiðar Hauksson gerðist brotlegur í teignum.

De Rosario, sem er án liðs í dag, skoraði einnig mark Kanada í fyrri leiknum, en þessi 36 ára gamli leikmaður er einn af þeim bestu sem Kanada hefur framleitt.

Byrjunarliðið í dag.mynd/Facebook-síða KSÍ
Íslenska liðið jafnaði metin á 65. mínútu. Markið skoraði Hólmbert Aron Friðjónson úr vítaspyrnu sem varamaðurinn Matthías Vilhjálmsson fiskaði, 1-1.

Þetta er fyrsta A-landsliðsmark Hólmberts fyrir Ísland í hans öðrum leik, en fyrsti leikurinn var sá fyrri gegn Kanada á föstudaginn var.

Matthías, sem skoraði seinna mark Íslands á föstudaginn, var hársbreidd frá því að skora sigurmarkið undir lok leiksins en hann rétt missti af frábærri fyrirgjöf Elíasar Más Ómarssonar frá hægri.

Haukur Heiðar Hauksson og Hörður Árnason spiluðu báðir sinn fyrsta landsleik í kvöld, en í heildina fengu sex nýliðar sinn fyrsta leik í þessari vikuferð til Orlando.

Lið Íslands (4-4-2): Ögmundur Kristinsson, Haukur Heiðar Hauksson, Hallgrímur Jónasson, Jón Guðni Fjóluson, Hörður Árnason - Rúrik Gíslason (Elías Már Ómarsson 45.), Guðmundur Þórarinsson (Björn Daníel Sverrisson 72.), Rúnar Már Sigurjónsson (Guðlaugur Victor Pálsson 45.), Þórarinn Ingi Valdimarsson (Ólafur Karl Finsen 61.) - Jón Daði Böðvarsson (Matthías Vilhjálmsson 45.), Hólmbert Aron Friðjónsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×