Alessandro Florenzi skoraði stórkostlegt mark þegar Roma og Barcelona gerðu 1-1 jafntefli í Meistaradeild Evrópu í kvöld.
Luís Suárez kom Evrópumeisturunum yfir á 21. mínútu þegar hann skallaði fyrirgjöf Ivan Rakitic í netið.
Tíu mínútum síðar var röðin komin að Florenzi. Hann vann boltann á miðjum vallarhelmingi Roma, lék áfram upp hægri kantinn og þegar hann var kominn nokkra metra inn á vallarhelming Börsunga lét hann vaða.
Skotið var frábært, boltinn fór yfir Marc-André ter Stegen, markvörð Barcelona, og í stöng og inn. Magnað mark sem Florenzi á sennilega aldrei eftir að gleyma.
Mörkin úr leiknum má sjá í spilaranum hér að ofan en mark Florenzi kemur eftir mínútu.
