Enski boltinn

Filipe Luis vill komast aftur til Atlético

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Filipe Luis var lykilmaður í Spánarmeistaraliði Atlético á síðustu leiktíð.
Filipe Luis var lykilmaður í Spánarmeistaraliði Atlético á síðustu leiktíð. vísir/getty
Filipe Luis, vinstri bakvörður í liði Chelsea í ensku úrvalsdeildinni, hefur sagt fyrrverandi samherja sínum hjá Atlético Madrid að hann vilji fara frá Chelsea strax í sumar aftur til Atlético.

Samkvæmt spænska íþróttablaðinu AS hringdi Luis í samlanda sinn Miranda, miðvörð Atlético, og sagðist þreyttur á fáum tækifærum hjá Chelsea.

Hjá Chelsea átti hann að vera fullkominn eftirmaður Ashleys Cole en hefur þurft að sætta sig við mikla bekkjarsetu þar sem Spánverjinn Cesar Azpilicueta er á undan honum í goggunarröðinni.

Luis hefur margsinnis sagt fjölmiðlum á Englandi að hann sé ánægður þrátt fyrir lítinn spiltíma en AS segir það ósatt. Hann sé ósáttur og vilji yfirgefa Stamford Bridge.

„Luis hefur ekki náð að aðlagast hjá Chelsea. Hann er búinn að átta sig á hversu ánægður hann var undir stjórn Diego Simeone og í samtali við Miranda á dögunum sagðist hann vilja koma aftur til Atlético,“ segir í frétt AS.

Samkvæmt heimildum blaðsins reyndi Filipe Luis að fá Miranda til að koma til Chelsea með honum, Thibaut Courtois og Diego Costa í sumar en Brasilíumaðurinn afþakkaði og hélt áfram að spila fyrir Spánarmeistarana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×