Erlent

Kúbumenn fagna tímamótum

guðsteinn bjarnason skrifar
Raul Castro á fundi með Obama Bandaríkjaforseta í síðustu viku.
Raul Castro á fundi með Obama Bandaríkjaforseta í síðustu viku. fréttablaðið/EPA
Embættismenn á Kúbu fagna því að Barack Obama Bandaríkjaforseti hafi ákveðið að taka landið af lista Bandaríkjanna yfir ríki sem styðja hryðjuverkasamtök. Kúbustjórn hefur krafist þess að vera tekin af þessum lista áður en gengið verður frá samningum um að Bandaríkin opni sendiráð á Kúbu. Ákvörðunin nú er tekin í beinu framhaldi af fundi Obama með Raul Castro Kúbuforseta í síðustu viku. Obama skýrði Bandaríkjaþingi frá þessari ákvörðun sinni á þriðjudag. Ef þingið gerir engar athugasemdir við hana tekur hún gildi innan 45 daga. Þingmenn gætu samþykkt ályktun til að mótmæla þessu, en það þykir ólíklegt.

Obama hefur samt engin völd til þess að aflétta upp á sitt eindæmi efnahagslegum refsiaðgerðum Bandaríkjanna gegn Kúbu, sem hafa verið í gildi í meira en hálfa öld. Til þess þarf hann samþykki þingsins, en fátt bendir til þess að meirihluti sé fyrir því á meðal bandarískra þingmanna sem stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×