Enski boltinn

Wenger: Lykillinn að ævintýri Arsenal er að vinna Manchester City í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger.
Arsene Wenger. Vísir/Getty
Arsenal og Manchester City mætast í ensku úrvalsdeildinni í kvöld en það er búist við að þetta sé einn af úrslitaleikjunum í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn.

Leicester City hefur fimm stiga forskot á Arsenal fyrir þennan lokaleik 17. umferðar og Manchester City er síðan einu stigi á eftir lærisveinum Arsene Wenger.

Arsene Wenger fagnar árangri Leicester City í vetur. „Þetta er ekki aðeins gott fyrir enska fótboltann heldur einnig gott fyrir alla í fótbolta út um allan heim," sagði  Wenger í viðtali við Guardian.

Wenger gerir sér líka grein fyrir því að það er langt síðan Arsenal hefur átt jafngóða möguleika á því að vinna titilinn. Arsenal varð síðast enskur meistari 2004 og þótt að liðið hafi alltaf verið meðal fjögurra efstu síðan hefur það sjaldan haldið sér inn í titilbaráttunni á lokasprettinum.

Arsenal er samt eina liðið sem hefur unnið  Leicester City á leiktíðinni en Arsenal vann 5-2 sigur á heimavelli Leicester fyrr á tímabilinu.  „Það héldu allir að þetta hafi bara verið eðlileg úrslit. Síðan þá hefur það aftur á móti komið í ljós að þetta voru frábær úrslit og frábær frammistaða," sagði Wenger.

Arsene Wenger vill sjá sigur í kvöld en með því myndi Arsenal minnka forskot Leicester City í tvö stig og ná jafnframt fjögurra stiga forskoti á Manchester City.

„Titillinn mun vinnast á því að taka stig af hinum toppliðunum. Kannski mun það skipta meira máli en áður af því að toppbaráttan er svona jöfn. Efsta liðið er með 38 stig eftir sautján leiki sem þýðir að deildin er kannski að vinnast á 80 stigum," sagði Wenger og bætti við:

„Stöðugleikinn mun vera forgangsatriði því í hverri viku hafa verið óvænt úrslit. Við erum á góðu skriði og völdum að halda áfram á þeirri braut," sagði Wenger sem vill meina að lykillinn að ævintýri Arsenal í ensku deildinni á þessu tímabili sé að vinna Manchester City á heimavelli í kvöld.

Arsene Wenger rifjaði upp sigurinn á Olympiakos í Meistaradeildinni. „Menn voru að efast um karakterinn í liðinu um tíma og það var kannski skiljanlegt því í liðinu voru margir ungir leikmenn. Núna þurfum við að sýna öflugan karakter í hverri viku en í leiknum á móti Olympiakos sýndi liðið að það býr í liðinu sterkur karakter," sagði Wenger.

Leikur Arsenal og Manchester City hefst klukkan 20.00 og er í beinni á Stöð 2 Sport 2.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×