Enski boltinn

Arsenal tók toppsætið | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Olivier Giroud fagnar marki sínu.
Olivier Giroud fagnar marki sínu. Vísir/Getty
Arsenal tyllti sér á topp ensku úrvalsdeildarinnar með 0-2 sigri á botnliði Aston Villa á Villa Park í dag.

Mörkin úr leiknum má sjá hér fyrir neðan.

Skytturnar eru nú komnar með 33 stig, einu meira en Manchester City og Leicester City en síðastnefnda liðið getur skotist á toppinn með sigri á Chelsea á morgun.

Arsenal fékk vítaspyrnu strax á 8. mínútu þegar Alan Hutton braut á Theo Walcott innan teigs. Oliver Giroud fór á punktinn og skoraði af öryggi, sitt níunda deildarmark í vetur.

Arsenal var miklu sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og Aaron Ramsey jók muninn í 0-2 á 38. mínútu með skoti af stuttu færi eftir sendingu Mesut Özil. Þjóðverjinn hefur verið magnaður í vetur og lagt upp 13 mörk í 15 deildarleikjum.

Villa-menn voru skömminni skárri í seinni hálfleik en ógnuðu forystu Arsenal aldrei að neinu ráði.

Þetta var þriðja tap Villa í síðustu fjórum leikjum en liðið er rótfast á botni úrvalsdeildarinnar með aðeins sex stig, átta stigum frá öruggu sæti.

Aston Villa 0-1 Arsenal Aston Villa 0-2 Arsenal



Fleiri fréttir

Sjá meira


×