Fótbolti

Platini ætlar að hunsa siðanefnd FIFA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Michel Platini, forseti Knattspyrnusambands Evrópu, ætlar ekki að mæta fyrir siðanefnd FIFA á föstudag þegar úrskurður nefndarinnar í máli hans verður lesinn upp.

Platini var ásamt Sepp Blatter, forseta FIFA, dæmdur í 90 daga bann frá knattspyrnu þegar upp komst um greiðslu sem Platini þáði frá FIFA árið 2011.

Sjá einnig: FIFA vill Platini í lífstíðarbann

Aðilar hafa haldið því fram að það hafi verið vegna vangoldinna launa frá því að Platini sinnti störfum fyrir Blatter og FIFA en engin gögn eru til sem styðja það.

Haft var eftir talsmanni siðanefndar FIFA í franska blaðinu L'Equipe á dögunum að Platini yrði „á hliðarlínunni í nokkur ár“. Lögmenn Platini tóku illa í þessi ummæli og sögðu í yfirlýsingu sem birtist í dag að verið væri að dæma Platini áður en sekt hans væri sönnuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×