Erlent

Hafa fundið leið í átt að samkomulagi um ESB-aðild Breta

Atli Ísleifsson skrifar
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. Vísir/AFP
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segir að leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins hafi fundið leið til að feta í átt að samkomulagi um ESB-aðild Bretlands.

Hann segir að „góður árangur“ hafi náðst á leiðtogafundinum í Brussel, en að mikil vinna bíði til að hægt sé að ná endanlegu samkomulagi áður en settur frestur rennur út í febrúar.

Cameron hefur farið fram á að breytingar verði gerðar á fjórum sviðum, meðal annar að bætur til verkamanna frá öðrum aðildarríkjum ESB sem starfa í Bretland verði skertar í fjögur ár.

Í frétt BBC kemur fram að Angela Merkel Þýskalandskanslari segi að allir leiðtogar aðildarríkjanna vilji sjá málamiðlun.

Cameron vill ná samkomulagi um breytingar á ESB-aðild Bretlands, áður en þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um hvort Bretar eigi að segja skilið við sambandið eður ei. Atkvæðagreiðslan á að fara fram í síðasta lagi fyrir árslok 2017.

Auk bótaskerðinga erlends verkafólks, fer Cameron fram á vernd þeirra ESB-ríkja sem standa utan evrusamstarfsins í fjárhagslegum málum, að ráðist verði í aðgerðir til að auka samkeppnishæfni og undanþágu fyrir Bretland frá ákvæði sáttmála sambandsins um að sækjast að stöðugt nánari samruna innan sambandsins.

ESB-aðild Breta var ásamt öðrum málum til umræðu á kvöldverðarboði leiðtoga ESB-ríkja í Brussel í gærkvöldi. Fréttaritari BBC segir að líkur væru á að aðildarríkin myndu koma sér saman um lagalega bindandi samning varðandi aðild Breta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×