Fótbolti

Aron nær líklega ekki að spila meira á árinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Það verður bið á því að Aron spili með Werder Bremen á nýjan leik.
Það verður bið á því að Aron spili með Werder Bremen á nýjan leik. Vísir/Getty
Aron Jóhannsson mun líklega ekki spila meira á árinu ef marka má orð Rouwen Schroder, yfirmanns íþróttamála hjá þýska liðinu Werder Bremen.

Aron gekkst fyrir mánuði síðan undir aðgerð á mjöðm og byrjaði nú á sunnudaginn að æfa einn síns liðs á nýjan leik. Eftir aðgerðina sögðu forráðamenn Bremen að það væri tvísýnt um að Aron myndi spila meira á árinu.

„Það færir manni smá von,“ sagði Schroder um stöðu Arons og að hann væri byrjaður að æfa á nýjan leik. „En það þýðir samt ekki að hann muni brátt æfa með liðinu,“ sagði hann og bætti við að liðið myndi frekar vilja endurheimta Aron þegar hann er heill heilsu, fremur en að ýta honum of snemma af stað.

Sjá einnig: Aron fór undir hnífinn í dag

Aron gekk í raðir Bremen í sumar og skoraði tvö mörk í sex leikjum áður en hann meiddist. Hann reyndi fyrst að ná bata með sjúkraþjálfun en þegar það bar ekki nægilega góðan árangur var ákveðið að hann myndi leggjast undir hnífinn.

Werder Bremen er í fimmtánda og fjórða neðsta sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með þrettán stig. Liðið hefur tapað tveimur leikjum í röð og mætir Stuttgart, næstneðsta liði deildarinnar, á laugardaginn.

Þýska úrvalsdeildin fer í vetrarfrí skömmu fyrir jól og hefst svo aftur 24. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×