Enski boltinn

Nýliðar Bournemouth sóttu óvænt þrjú stig á Brúnna | Sjáðu markið

Nýliðar Bournemouth unnu frækinn 1-0 sigur á Chelsea á Stamford Bridge í kvöld en Glenn Murray skoraði eina mark leiksins.

Með sigrinum skaust Bournemouth upp fyrir Sunderland og upp úr fallsæti í bili en Chelsea er í 14. sæti að 15. umferðum loknum, þremur stigum frá fallsæti.

Flestir áttu von á því að þetta yrði auðveldur sigur fyrir ensku meistaranna en líkt og oft áður í vetur voru leikmenn Chelsea einfaldlega ekki nægilega góðir.

Gestirnir fengu góð færi til að komast yfir í fyrri hálfleik en staðan var markalaus í hálfleik. Í seinni hálfleik færðu leikmenn Chelsea sig framar á völlinn en Bournemouth tókst að skora eina mark leiksins á 82. mínútu þegar Murray skoraði með skalla af stuttu færi.

Þegar markið var endursýnt sást að Murray var rangstæður í markinu en leikmenn og stuðningsmenn Bournemouth fögnuðu markinu.

Chelsea tókst ekki að koma boltanum í netið á síðustu mínútunum og fögnuðu lærisveinar Eddie Howe því óvæntum en kærkomnum þremur stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×