Fótbolti

Er Platini saklaus?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michel Platini.
Michel Platini. Vísir/Getty
Lögfræðingur Michel Platini segir að ný gögn sem birtust í frönsku dagblaði í dag sýni að skjólstæðingur hans sé saklaus.

Platini og Sepp Blatter, forseti FIFA, voru settir í 90 daga bann vegna greiðslu sem FIFA greiddi Platini árið 2011. Þeir eiga yfir höfði sér mun þungari refsingu verði þeir fundnir sekir af siðanefnd FIFA sem mun taka mál þeirra fyrir síðar í mánuðinum.

Sjá einnig: FIFA vill Platini í lífstíðarbann

Báðir hafa haldið fram sakleysi sínu en hingað til hefur ekki verið hægt að finna nein gögn um greiðsluna, sem mun hafa verið fyrir ráðgjafastörf sem Platini vann fyrir Blatter frá 1998 til 2002.

Le Journal du Dimanche birti í dag minnisblað frá 1998 með upplýsingum um samkomulag um áðurnefnda greiðslu. Thomas Clay, lögmaður Platini, segir að minnisblaðið breyti öllu.

„Um leið og við höfum sönnun þess efnis að samkomulag hafi ríkt á milli FIFA og hr. Platini þá mun þessi rannsókn falla niður,“ sagði Clay.

Fram kemur í umfjöllun blaðsins að minnisblaðið hafi verið lagt fram hafi verið lagt fram á fundi framkvæmdarstjórnar Knattspyrnusambands Evrópu árið 1998.

Þar kom fram að Platini fái eina milljón svissneskra franka vegna starfa sinna fyrir FIFA en vegna fjárhagsvandræða sambandsins verði greiðslunni seinkað.

Platini ætlaði að bjóða sig fram sem forseti FIFA og vonast til þess að ný gögn sanni sakleysi sitt svo hann geti boðið sig fram fyrir ársþing FIFA þann 26. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×