Enski boltinn

Er þolinmæði Abramovich á þrotum?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho hefur ekki glímt við annað eins mótlæti á ferlinum og síðustu vikur og mánuði hjá Englandsmeisturum Chelsea.
Jose Mourinho hefur ekki glímt við annað eins mótlæti á ferlinum og síðustu vikur og mánuði hjá Englandsmeisturum Chelsea. Fréttablaðið/AP
Það er nánast óhætt að fullyrða að enginn hefði getað séð fyrir að eftir fyrstu fimmtán umferðirnar í ensku úrvalsdeildinni þetta tímabilið yrði Leicester á toppnum og Englandsmeistarar Chelsea í fjórtánda sæti, aðeins tveimur stigum frá fall­sæti. Þetta er að engu síður raunin.

Ástandið hjá knattspyrnustjóranum Jose Mourinho versnaði enn um helgina þegar liðið tapaði fyrir nýliðum Bournemouth, 1-0. Til að gera vonda sögu enn verri fór leikurinn fram á Stamford Bridge í Lundúnum, sem eitt sinn var óvinnandi vígi hjá Chelsea undir stjórn Mourinho.

Kenningin um þriðja árið

Slæmt gengi Chelsea í vetur verður að teljast mikil ráðgáta enda er liðið skipað að stærstum hluta sama hópi leikmanna og vann ensku deildina í vor. Meira að segja Spánverjinn Pedro kom í sumar frá Barcelona en það á eins við um hann og flesta aðra í liði Lundúnafélagsins – hann virðist langt frá sínu besta. Pedro hefur til að mynda hvorki skorað né lagt upp mark í deildarleik síðan í ágúst.

Sama hvaða álit menn hafa á Jose Mourinho er ekki hægt að líta framhjá því að árangur hans á ferlinum er glæsilegur – 22 titlar í fjórum löndum á þrettán árum. En þess ber að geta að sautján af þessum titlum vann hann á fyrstu átta árunum. Undanfarin fimm tímabil hefur hann „aðeins“ skilað fimm titlum í hús – sem er þó meira en langflestir aðrir geta sagt.

Sjá einnig: Mourinho hrærður yfir móttökum stuðningsmanna

Sú kenning að lið undir stjórn Jose Mourinho hafi hrunið á þriðja ári hans hefur verið á flugi í haust. Sjálfur sagði hann ekkert hæft í henni þegar umræðan fór fyrst af stað í haust og benti á að hann hefði hvorki verið í þrjú ár hjá Porto né Inter. Hjá Chelsea­ (í fyrra skiptið sem hann stýrði liðinu) og Real Madrid hafi liðið unnið bikartitla og komist í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu.

Mourinho hefur notið stuðnings eigandans, Romans Abramovich, og stjórnar Chelsea. Abramovich var á leiknum á laugardaginn og myndir af honum með andlitið grafið í eigin lúkur voru áberandi á baksíðum ensku blaðanna í gær. Því hefur ítrekað verið velt upp hvort þolinmæði Abramovich sé nú eða verði senn á þrotum. Það veit enginn nema Rússinn sjálfur.

Roman AbramovichVísir/Getty
Dýrt að reka Mourinho

Jafnvel þótt Abramovich vilji reka Mourinho gæti það reynst dýrt spaug, enda skrifaði Portúgalinn undir nýjan fjögurra ára samning við Chelsea fyrir réttum fimm mánuðum í dag. „Þetta er það félag sem stendur næst hjarta mínu og ég er mjög ánægður að vita að ég verð hér í langan tíma,“ sagði Mourinho þá.

Mourinho ætlaði sér að byggja upp nýtt stórveldi í enska boltanum. Stórveldi í ætt við það sem Alex Ferguson byggði upp hjá Man­chester­ United. En efasemdaraddirnar hafa aldrei verið háværari.

„Allir aðrir stjórar væru búnir að missa vinnuna,“ sagði Jason Burt, blaðamaður Daily Telegraph, í vikulegum umræðuþætti á Sky Sports í gær. „Kannski telja þeir enn að hann sé „sá sérstaki“, afskrifa þetta tímabil og byrja upp á nýtt í haust.“

Ráðast örlögin gegn Porto?

Annar blaðamaður, John Richard­son hjá Sunday Express, sagði í sama þætti að hann vilji sjá hvernig Mourinho nái að bjarga sér úr þeim aðstæðum sem hann er í. „Hann hefur alltaf farið frá sínum liðum eftir tvö eða þrjú ár. Hefur hann það sem til þarf til að endurbyggja lið?“

Það kann að hljóma eins og kaldhæðni örlaganna en næsti leikur Chelsea verður gegn Porto, gamla liðinu hans Mourinho, í Meistaradeildinni á miðvikudag. Tap gæti þýtt að Chelsea falli úr leik í keppninni og Abramovich hefur áður sýnt að hann hafi litla þolinmæði fyrir því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×