Erlent

Aldrei fleiri látið lífið í hryðjuverkum

Samúel Karl Ólason skrifar
Árásin á tvíburaturnana í New York er mannskæðasta hryðjuverkaárás sem hefur verið framin.
Árásin á tvíburaturnana í New York er mannskæðasta hryðjuverkaárás sem hefur verið framin. Vísir/AFP
32,685 manns létu lífið í hryðjuverkaárásum í fyrra og er það hæsta tala látinna sem mælst hefur. Árið 2013 létu 18.111 manns lífíð í árásum og er aukningin um 80 prósent. Rúmlega helmingur allra dauðsfalla áttu sér stað í einungis tveimur löndum, Írak og Nígeríu.

Í skýrslunni segir að fjöldi látinna hafi nífaldast frá árinu 2000 og ein stærsta ástæða þess er talin vera innrás Bandaríkjanna í Írak árið 2003. Árið 2000 létu 3.329 manns lífið í hryðjuverkaárásum.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Global Terrorism Index sem birt var á dögunum.

Samkvæmt skýrslunni voru framdar árásir í 93 ríkjum en 78 prósent allra dauðsfalla áttu sér stað í einungis fimm ríkjum. Írak, Nígeríu, Afganistan, Pakistan og Sýrlandi. Þó er vert að taka fram að samkvæmt skýrslunni var framin hryðjuverkaárás hér á landi sem á að hafa ollið eignatjóni en engum dauðsföllum.

Uppfært: Um er að ræða atvik þar sem reynt var að kveikja í kirkju á Akureyri.

Skýrslan er unnin upp úr tölum frá START.

Þó að bróðurpartur hryðjuverka eigi sér stað í tiltölulega fáum ríkjum, fjölgaði þeim ríkjum þar sem hryðjuverk voru framin og hafa þau aldrei verið fleiri. Þá var meira en tvöföldun á ríkjum þar sem fleiri en fimm hundruð létu lífið. Í fyrra voru þau ellefu, en fimm árið áður.

Sem áður er Írak verst stadda landið samkvæmt skýrslunni, þar sem 9.929 létu lífið en mesta fjölgunin átti sér stað í Nígeríu. Þar létu 5.662 lífið í hryðjuverkaárásum í fyrra sem er aukning um rúm 300 prósent á milli ára.

Talið er að hryðjuverkasamtökin Boko Haram, sem eru virk í Nígeríu og fleiri löndum, hafi myrt 6.644 í fyrra. Boko Haram myrtu þar með flesta á árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×