Enski boltinn

Mourinho: Ég þarf ekki nýja leikmenn í janúar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
José Mourinho á blaðamannafundinum í morgun.
José Mourinho á blaðamannafundinum í morgun. vísir/getty
José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, segist viss um að Chelsea geti náð Meistaradeildarsæti án þess að kaupa nýja leikmenn til liðsins í janúar.

Englandsmeistararnir mæta nýliðum Norwich um helgina, en þeir eru sem stendur í 16. sæti með ellefu stig eftir tólf umferðir.

Chelsea er þrettán stigum á eftir Manchester United sem er í fjórða sætinu, en ekkert lið hefur komist í Meistaradeildina eftir að vera með aðeins ellefu stig eftir tólf umferðir.

Aðspurður á blaðamannafundi í dag hvort Chelsea geti breytt þeirri tölfræði svaraði Mourino einfaldlega: „Já.“

Hann segist ánægður með sína leikmenn og hefur trú á að þeir geti náð markmiði liðsins sem er úr þessu að landa Meistaradeildarsæti.

„Ég treysti leikmönnunum. Ég þarf ekki að hreinsa til í klefanum eins og ég heyrði að einhver skrifaði. Ég þarf heldur ekki að biðja félagið um pening til að eyða í leikmenn í janúar,“ sagði Mourino.

„Við komum okkur í frábæra stöðu saman með því að verða meistarar. Við gerðum það saman og nú þurfum við að standa saman til að komast aftur á réttan stað,“ sagði José Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×