Innlent

Skartgriparánið í Hafnarfirði: Maðurinn sem liggur undir grun fyrir skipulagninu ránsins í áframhaldandi gæsluvarðhald

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Gullsmiðjan stendur við Lækjargötu í Hafnarfirði.
Gullsmiðjan stendur við Lækjargötu í Hafnarfirði. Vísir/Vilhelm
Hæstiréttur hefur staðfest áframhaldandi gæsluvarðhald yfir karlmanni vegna gruns um aðild að skartgriparáninu í Gullsmiðjunni í Hafnarfirði þann 22. október. Maðurinn var handtekinn í Keflavík að kvöldi dagsins sem ránið átti sér stað eftir að hafa skotið að lögreglu með loftbyssu. 

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms Reykjaness sem úrskurðaði manninn í gæsluvarðhald þann 6. nóvember. Verður hann því í gæsluvarðhaldi til 4. desember. Sl. mánudag var annar maður úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna ránsins.

Í úrskurði Hæstaréttar kemur fram að tveir aðrir menn sem ákærðir eru fyrir þátt sinn í ráninu hafi skýrt frá því við rannsókn málsins að maðurinn sem nú hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald hafi skipulagt ránið. 

Sjá einnig: Tveir í gæsluvarðhaldi vegna skartgriparánsins

Eins og komið hefur fram á Vísi var ránið hrottalegt. Maðurinn er grunaður um að hafa ráðist inn í skartgripabúðina Gullsmiðjuna í Hafnarfirði í félagi við annan mann. Hafi hann verið vopnaður exi og haft á brott með sér óþekkt magn skartgripa.

Síðar um daginn skaut hann úr gasbyssu í átt að lögreglumönnum sem höfðu afskipti af honum í Keflavík að kvöldi ránsins.

Í dóminum kemur fram að samkvæmt rannsóknargögnum málsins liggi maðurinn undir sterkum grun um rán, valdstjórnarbrot, tilraun til stórfelldrar líkamsárásar og hættubrot.

Því sé það mat lögreglu að hann sé hættulegur umhverfi sínu og gæsluvarðhald því nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Jafnframt segir að það myndi særa réttarvitund almennings gengi maðurinn laus og hefur hann því verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 4. desember.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×