Innlent

Tveir til viðbótar teknir vegna skartgriparáns

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Fjórir menn eru nú grunaðir um aðild að ráninu.
Fjórir menn eru nú grunaðir um aðild að ráninu. vísir/vilhelm
Tveir menn voru handteknir í gær grunaðir um aðild að vopnuðu ráni sem framið var í Gullsmiðju í Hafnarfirði þann 22. september síðastliðinn.

Í síðustu viku handtók lögreglan tvo menn vegna gruns um ránið og var annar þeirra úrskurðaður í gæsluvarðhald. Fjórir menn eru því grunaðir um aðild að ráninu.

Mennirnir sem réðust inn í búðina voru tveir. Þeir voru grímuklæddir, vopnaðir exi og bareflum og ógnuðu starfsmönnum. Þá brutu þeir upp hirslur og höfðu á brott með sér umtalsverð verðmæti. Þeir óku frá vettvangi á hvítum jepplingi sem svo var skilinn eftir við Grinda­víkur­afleggjara um þrjátíu mínútum eftir ránið. Annar þeirra var í kjölfarið handtekinn í Keflavík, en þá var hann vopnaður loftbyssu og skaut í átt að lögreglu.

Lögreglan vill ekki gefa upp verðmæti þýfisins né hvort það hafi tekist að hafa uppi á mununum sem stolið var.

„Það var framkvæmd húsleit í gær og tveir handteknir í tengslum við þetta mál. Ég get ekki sagt til um það hvort það sé búið að finna þýfið,“ segir Bjarni Ólafur Magnússon lögreglufulltrúi.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur hald verið lagt á tvö ökutæki, þó nokkurt magn af fíkniefnum og loftbyssu. Lögregla segir að um umfangsmikið og fjölþætt mál sé að ræða og að verið sé að vinna úr ýmsum gögnum. Flest bendi til að ránið hafi verið vel skipulagt.

„Málið er til rannsóknar og hafa verið framkvæmdar nokkrar húsleitir vegna málsins,“ segir Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn um málið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×