Íslenski boltinn

Atli Guðnason hefur mögulega spilað sinn síðasta leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Andri Marinó
Atli Guðnason er í ítarlegu viðtali á Fótbolti.net þar sem hann segir að hann sé að íhuga hvort hann eigi að hætta í fótbolta.

Atli er aðeins 31 árs gamall en hefur verið allan sinn feril í FH. Árið 2004 var hann lánsmaður í HK og ári síðar í Fjölni. Samningur hans við Hafnarfjarðarfélagið er þó útrunninn.

Hann segir að allir möguleikar komi til greina - vera áfram í FH, fara í annað félag, leita út fyrir landsteinana og jafnvel hætta.

„Ég ætla bara að sjá hvað býðst, leyfa tímanum aðeins að líða. Ég er ekkert að stressa mig á þessu,“ sagði Atli við Fótbolta.net.

Hann segist vera spenntur fyrir þeim möguleika að fara út en hann hefur þó ekki enn átt í viðræðum við erlend félagslið. „Ég hef aldrei gert það og það væri smá ævintýri. Ég hef verið í föstum skorðum í einhver ár og það er allt í boði núna.“

Atli segist ekki hafa mikla trú á því að hann muni spila fyrir annað íslenskt félag en að það, eins og annað, komi í ljós.

Hann starfar sem framhaldsskólakennari og getur vel hugsað sér að einbeita sér aðeins að kennslunni á næsta ári.

„Ég er orðinn þreyttur á að vera bæði kennar og fótboltamaður. Ég er orðinn þreyttur á að vera nánast aldrei heima hjá mér og bara í vinnu frá 08.00 til 20.00. Svo er ég í námi líka og með fjölskylduna. Það er mikið að gera og ýmislegt sem þarf að velja og hafna.“

Atli ætlar að gera upp hug sinn fyrir áramót en viðtalið við hann má lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×