Erlent

Birtu mynd af sprengjunni sem sögð er hafa grandað flugvélinni

Samúel Karl Ólason skrifar
Hér má sjá myndina af sprengju sem ISIS segir hafa verið notaða til að granda flugvél.
Hér má sjá myndina af sprengju sem ISIS segir hafa verið notaða til að granda flugvél.
Fjölmiðladeild samtakanna sem kenna sig við Íslamskt ríki birtu í dag nýja útgáfu tímaritsins Dabiq. Þar má sjá mynd af sprengju í Scwepper ananassafadós og segja þeir að hún hafi verið notuð til að granda rússnesku flugvélinni yfir Sinaiskaga.

Þar að auki voru birtar myndir af líkum tveggja gísla samtakanna, sem hafa verið teknir af lífi. Mennirnir voru frá Noregi og Kína. Við myndirnar af þeim segir að þeir hafi verið yfirgefnir af stjórnvöldum sínum. Áður höfðu verið birtar myndir af þeim þar sem þeir voru sagðir til sölu.

Fjölskylda Ole Johan Grimsgaard-Ofstad sagði frá því í september að þau hefðu ekki efni á því að greiða lausnargjaldið sem ISIS-liðar höfðu sett fram eftir að hann var handsamaður í janúar. Þeir voru sagðir krefjast fleiri tuga milljóna króna.

Norska ríkisstjórnin neitaði að semja við hryðjuverkamennina.

Sjá einnig: Fjölskylda norska gíslsins segist ekki hafa efni á að greiða lausnargjaldið.

Tímaritið Dabiq er á ensku og ber nýjasta tölublaðið titilinn „Just Terror“. Þar er fjallað um árásirnar í París sem og rússnesku flugvélina sem grandað var yfir Sinaiskaga. ISIS segja að upprunalega hafi staðið til að granda flugvél frá Bandaríkjunum, en áætlunum samtakanna hafi verið breytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×