Innlent

„Hefði íbúðin verið útbúin til nauðgana, þá hefðum við farið fram á gæsluvarðhald“

Bjarki Ármannsson skrifar
Yfirlögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir ekki allar upplýsingar sem komið hafa fram í fjölmiðlum um rannsókn Hlíðarmálsins alveg réttar.
Yfirlögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir ekki allar upplýsingar sem komið hafa fram í fjölmiðlum um rannsókn Hlíðarmálsins alveg réttar. Vísir
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir ekki allar upplýsingar sem komið hafa fram í fjölmiðlum um rannsókn á meintum nauðgunum í íbúð í Hlíðarhverfi alveg réttar. Hún segir að íbúðin hafi ekki verið „útbúin til nauðgana“ líkt og fullyrt var í fyrirsögn Fréttablaðsins af málinu í morgun.

„Ég held að ég geti alveg fullyrt að hefði íbúðin verið útbúin til nauðgana, þá hefðum við farið fram á gæsluvarðhald,“ sagði Alda Hrönn í viðtali við útvarpsþáttinn Reykjavík síðdegis á Bylgjunni fyrir stuttu. „Þær upplýsingar sem eru í fjölmiðlum eru ekki allar alveg réttar.“

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að við rannsókn á tveimur aðskildum kynferðisbrotamálum hefði húsleit verið gerð í íbúðinni. Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar. Lögregla hafi þar fundið ýmis tæki og tól sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur.

Þá hafi hankar verið í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.Vísir/Pjetur
Reiðin ekki farið framhjá lögreglu

Sem kunnugt er, fór lögregla ekki fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum tveimur sem grunaðir eru um nauðganirnar. Mikil reiði hefur brotist út á samfélagsmiðlum vegna þessa og voru mótmæli skipulögð við lögreglustöðina á Hverfisgötu sem hófust nú klukkan fimm. Mennirnir tveir eru báðir taldir farnir úr landi.

„Reiðin hefur ekki farið framhjá okkur,“ segir Alda Hrönn. „Það er mjög leitt ef fólkir upplifir ekki öryggi, við viljum svo sannarlega tryggja öryggi fólks. Við hefðum að sjálfsögðu leitað annarra leiða ef við teldum fólk í þannig hættu að það gæti ekki farið út í búð. Maður biðlar náttúrulega bara til þeirra sem verða fyrir þessum brotum að gefast ekki upp heldur leita til okkar.“

Aðspurð hvort margir sem gagnrýnt hafa störf lögreglu í þessu máli byggi skoðanir sínar á staðreyndum sem liggi ekki endilega fyrir, segist Alda Hrönn telja að svo sé.

„Það er ansi mikið þannig,“ segir hún. „Ég hef mjög lítið séð af þessum umræðum í dag, en það er allt lagt upp úr því að það sé satt og rétt sem kemur fram í fjölmiðlum. Við þurfum aðeins að varast það og treysta á að það sé verið að vinna í þeim málum sem liggja fyrir. Auðvitað er enginn hafinn yfir gagnrýni en við þurfum líka að varast það að taka öllu eins og það sé heilagur sannleikur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×