Erlent

Kínverjar ekki hræddir við stríð

Samúel Karl Ólason skrifar
Herskipið USS Lassen.
Herskipið USS Lassen. Vísir/EPA
Kínverjar eru ekki hræddir við að fara í stríð við Bandaríkin vegna deilna um yfirráð á Suður Kínahafi. Þessu er haldið fram í dagblaði í landinu sem haldið er úti af kommúnistaflokki landsins. Í blaðinu eru Bandaríkin sökuð um að storka Kínverjum en herskipið USS Lassen sigldi inn fyrir tólf mílna landhelgi Spratly eyjaklasans sem Kínverjar hafa slegið eign sinni á, í óþökk nágrannaríkja.

Í ritstjórnargrein blaðsins eru stjórnvöld í Beijing hvött til að taka hart á yfirgangi Bandaríkjamanna og búa sig undir það versta. Það muni sýna Bandaríkjunum að Kínverjar séu staðráðnir í að vernda hagsmuni sína á svæðinu og halda virðingu sinni.

Samkvæmt alþjóðalögum mega herskip sigla í gegnum hafstjórnarsvæði annarra ríkja, sé tilgangur þeirrar ferðar „saklaus“. Bandaríkin höfðu þó gefið út fyrirfram að tilgangur siglingarinnar væri að mótmæla kröfum Kína á hafsvæðinu, eftir að þeir byggðu eyjar þar.

Kínverjar hafa brugðist við siglingu Lassen með miklum áróðri og segja siglinguna hafa ógnað friði og stöðugleika á svæðinu. Þeir segja einnig að atvikið hafi skaðað samband Kína og Bandaríkjanna og sendirherra Bandaríkjanna hefur verið kallaður á fund stjórnvalda í Beijing.


Tengdar fréttir

Saka bandarískt herskip um landhelgisbrot

Utanríkisráðherra Kína sendi Bandaríkjamönnum tóninn og sagði að þeir skyldu hugsa sig tvisvar um áður en þeir reyndu slíkt aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×