Erlent

Gamalt fangelsi í Malmö nýtt fyrir hælisleitendur

Atli Ísleifsson skrifar
Kirsebergsfangelsið var opnað árið 1914.
Kirsebergsfangelsið var opnað árið 1914. Mynd/Wikipedia
Mögulegt er að Kirsebergsfangelsið í sænsku borginni Malmö verði nýtt sem heimili fyrir hælisleitendur.



Morgan Johansson, ráðherra innflytjendamála í Svíþjóð, hvatti um daginn stofnanir á vegum hins opinbera til að bjóða fram fasteignir sem mögulega væri hægt að nýta til að hýsa hælisleitendur.



„Nú verða allir að hjálpast að. Fangelsismálastofnun er vön því að vinna að umönnun og við getum boðið fram ýmislegt til að finna megi lausn á þessu brýna viðfangsefni,“ segir fangelsismálastjórinn Nils Öberg í yfirlýsingu á heimasíðu stofnunarinnar.



Auk hins 101 árs gamla Kirsebergsfangelsis hafa fangelsismálayfirvöld boðið fram hegningarhúsið í Smälteryd í Vestur-Gautlandi. Fangelsinu í Smälteryd hefur verið lokað á meðan verið er að gera upp Kirsebergsfangelsið.



Kirsebergsfangelsinu var lokað tímabundið í maí og gat þá hýst 151 fanga, þó að búist sé við að mögulegt verði að hýsa umtalsvert fleiri hælisleitendur í húsnæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.