Innlent

Tekist á um efnahagslegan skaða vegna tillögunnar

Bjarki Ármannsson skrifar
Fjöldi fólks er samankominn á fundinum í ráðhúsinu.
Fjöldi fólks er samankominn á fundinum í ráðhúsinu. Vísir/Vilhelm
Á aukafundi borgarstjórnar er áfram verið að ræða afturköllun tillögu borgarstjórnar um viðskiptaþvinganir gagnvart Ísraelsríki.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gerði mögulegan fjárhagslegan skaða íslenskra fyrirtækja vegna tillögunnar meðal annars að umtalsefni í ræðu sinni. Jafnframt gaf hann í skyn að hann teldi Dag B. Eggertsson borgarstjóra eiga að segja af sér embætti vegna málsins.

Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingar, spurði á móti hvernig Júlíus hefði upplýsingar um að „fjölmargir“ hafi orðið fyrir fjárhagslegum skaða. Jafnframt benti Skúli á yfirlýsingu frá hópi fjárfesta sem koma að byggingu hótels við Hörpu þar sem segir að byggingaráform séu óbreytt þrátt fyrir ótta um annað.

Júlíus Vífill sagði hinsvegar að samkvæmt bréfi frá Eggerti Dagbjartssyni, íslenskum fjárfesti sem kemur að byggingu hótelsins, til bankastjóra Arion banka sé ljóst að órói sé í kringum verkefnið. Það sé ljóst að borgarfulltrúar eigi í vændum að vera þekktir sem rasistar vegna samþykktar tillögunnar.

Þá taldi Júlíus upp aðila sem sagst hafa fundið fyrir neikvæðum áhrifum vegna málsins, þeirra á meðal vatnsbóndann Jón Ólafsson, bjórframleiðandann Einstök og flugfélagið Wow. Hann gagnrýndi fulltrúa meirihlutans jafnframt fyrir að hafa ekki sjálfir reynt að meta umfang skaðans sem tillagan gæti valdið.


Tengdar fréttir

Engin sniðganga í Reykjavíkurborg

Dagur B. Eggertsson þiggur ráð frá borgarstjóra Kaupmannahafnar um sniðgöngu. Frekari skref verða ekki tekin fyrr en eftir samráð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×