Erlent

Obama og Pútín funda í fyrsta sinn í tæpt ár

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Obama og Pútín hafa ekki fundað í hartnær ár.
Obama og Pútín hafa ekki fundað í hartnær ár. vísir/getty
Barack Obama, Bandaríkjaforseti, og Vladimir Pútín, Rússlandsforseti, munu hittast á fundi í New York næstkomandi mánudag. Leiðtogarnir munu báðir vera á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og ætla að nota tækifærið til að funda. Næstum því ár er liðið frá því að forsetarnir funduðu síðast.

Það virðist þó eitthvað óljóst hvert efni fundarins er þar sem fjölmiðlum hafa borist mismunandi upplýsingar um það, annars vegar frá Washington og hins vegar frá Moskvu.

Frá Washington bárust þær upplýsingar að aðalefni fundarins yrði stuðningur Rússa við uppreisnarmenn í Úkraínu. Auk þess myndu forsetarnir ræða aukinn vígbúnað Rússa í Sýrlandi. Sagði fjölmiðlafulltrúi Obama að hann myndi nota tækifærið og brýna það fyrir Pútín að Rússar yrðu að standa við þá samninga sem þeir hefðu gert og yfirgefa stríðshrjáð svæði í Austur-Úkraínu.

Talsmaður Pútín sagði hins vegar að efni fundarins yrði ástandið í Sýrlandi og að forsetarnir myndu ræða Úkraínu ef tími gæfist til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×