Innlent

Vísað burt af Hlemmi eftir tugi ára

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Ágústa Sigurðardóttir er ein þeirra sem missa starf sitt. Hún vinnur í sjoppunni og segir hana hluta af menningu borgarinnar.
Ágústa Sigurðardóttir er ein þeirra sem missa starf sitt. Hún vinnur í sjoppunni og segir hana hluta af menningu borgarinnar. vísir/stefán
Rekstraraðilum til tuga ára verður vísað burt af Hlemmi nú fyrir áramót en til stendur að efla þar mannlíf með fjölbreyttari starfsemi. Hlemmi verður lokað í vetur og farþegar og gestir munu ekki eiga þar skjól í vondum veðrum.

Sigvaldi Karlsson hefur rekið sjoppuna á Hlemmi í rúmlega tuttugu og eitt ár. Hann hefur sagt upp starfsfólki sínu og segist ekki fá svör frá borginni um það hvort hann fái að selja veitingar á nýju Hlemmtorgi.

„Það er búið að segja upp leigunni og ég er búinn að segja upp öllu mínu starfsfólki, það kemur ekki til vinnu eftir 1. nóvember. Ég vil vita hvort ég má leigja hér áfram eftir breytingarnar. Ég hef beðið um svör en engin fengið. Þá er ég ósáttur við að veitingaleyfið mitt sé boðið út án þess að það sé talað við mig.“

Hann segist hafa fengið nýjar upplýsingar í gær. Tafir á framkvæmdum valda því að hann fær að vera lengur. Mánuð í senn þar til framkvæmdir hefjast. „Ef ég fengi frest í þrjá mánuði, þá gæti ég kannski unnið með það en eins og staðan er í dag, þarf ég að vera með allar hillur hálftómar vegna óvissunnar.“

Hlemmi verður lokað í vetur á meðan framkvæmdir standa yfir.vísir/stefán
Ágústa Sigurðardóttir er ein þeirra sem hefur verið sagt upp störfum þann 1. nóvember. „Ég á eftir að sakna Hlemms, yfirmaðurinn er náttúrulega frábær. Það væri mikill missir að þessari sjoppu, sumu má bara ekki breyta, þetta er hluti af menningu okkar.“

Gunnlaugur Jósefsson stendur vaktina við Passamyndir sem hafa starfað á Hlemmi í þrjátíu og fimm ár. Hann segir margt hafa breyst á Hlemmi sem þurfi úrbætur. „Það er oft löng röð af fólki að bíða eftir upplýsingum. Þetta fólk fær enga þjónustu og endar í einhverjum blindgötum.

Það er mikið af ferðamönnum sem biður um að fá að fara á klósettið. Klósettin úti eru alltaf að bila og fólk er að gera í buxurnar. Ég held að almenningur sé ekki alveg búinn að átta sig á því að hann verður rekinn út á gangstéttarbrún eftir sex vikur. Þá verður lokað hér. Fólk þarf bara að bíða undir þakkantinum sem míglekur.“

Hjálmar Sveinsson formaður umhverfis -og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar mikla vinnu í gangi með skipulag með Hlemm og hvernig gera megi það að hlýlegra og mannvænna torgi. „Það er gríðarleg uppbygging í allra næsta nágrenni, þetta er heitur reitur.“

Hann segir Reykjavíkurborg ekki aðila að því að ljúka samstarfi við rekstraraðila á Hlemmi. „Strætó er með þetta hús í leigu af borginni. Þeim leigusamningi lýkur 1.nóvember. Verkefni strætó er að koma þeim skilaboð til sinna leigutaka um það að þessu samstarfi sé lokið. Borgin er ekki aðili að því verkefni.“ 

Hugmyndir Sjávarklasans þóttu bestar um mannvænna Hlemmtorg. Hjálmar segir rétt að Hlemmi verði lokað á meðan framkvæmdir standi yfir og þá þurfi að finna aðstöðu fyrir strætisvagnastjóra og farþega. Það sé í höndum Strætó.“ 


Tengdar fréttir

Vilja nýtt hótel við Hlemm og veitingar í aðfluttu húsi

Samkvæmt tillögu að breytingu á deiliskipulagi á bankareitnum við Laugaveg 120 er gert ráð fyrir hótelbyggingu meðfram Rauðarárstíg, Stórholti og Þverholti. Skipulagsfulltrúi ekki með áhyggjur af bílastæðaskorti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×