Viðskipti innlent

Vilja nýtt hótel við Hlemm og veitingar í aðfluttu húsi

ingibjörg bára sveinsdóttir skrifar
Hér er fyrirhugað torg sem verður opið almenningi. Gert er ráð fyrir veitingaaðstöðu á torginu.
Hér er fyrirhugað torg sem verður opið almenningi. Gert er ráð fyrir veitingaaðstöðu á torginu.
Tillaga um breytingu á deiliskipulagi á bankareitnum við Laugaveg 120 hefur nú verið auglýst og á að skila ábendingum og athugasemdum fyrir 13. mars til skipulagsfulltrúa Reykjavíkur. Lóðarhafi, Mannverk ehf., hefur óskað eftir að skipulagsheimildum verði breytt þannig að hótel, þriggja til fjögurra hæða, rúmist á lóðinni.

„Það er gert ráð fyrir hótelbyggingu meðfram Rauðárstíg, upp Stórholt og inn Þverholt. Þar er gert ráð fyrir innigarði sem nýtist sem hótelgarður,“ segir Björn Axelsson skipulagsfulltrúi.

Björn kveðst ekki hafa áhyggjur af mögulegum skorti á bílastæðum á svæðinu. „Það eru sautján stæði við Þverholt, innan lóðar Laugavegs 120. Þar að auki eru almenn bílastæði allt um kring og stutt í almenningssamgöngur. Við höfum ekki áhyggjur og ekki lóðarhafar heldur.“

Norðurpóll Í húsinu, sem var byggt 1904 og er friðað, á að vera veitingasala. Húsið stóð við Hverfisgötu 125 og í því var veitingasala um tíma.fréttablaðið/ernir
Um áhyggjur þeirra sem starfa í ferðaþjónustu og aka ferðamönnum til og frá hótelum bendir Björn á að yfirleitt fylgi ekki mörg stæði hótelum í Reykjavík.

Í breytingunni felst meðal annars að lóðirnar að Laugavegi 120 og 124 verði sameinaðar, húsið Norðurpóll sem upphaflega var við Hverfisgötu 125 verði flutt á lóð merkta Laugavegur 122 eða 124, vestari hluti lóðar verði torgrými opið almenningi sem Hlemmur og framhús bankabyggingar mun halda heitinu Laugavegur 120.

Að sögn skipulagsfulltrúa er gert ráð fyrir veitingaaðstöðu á fyrirhuguðu torgi, í húsinu sem heitir Norðurpóll. Húsið var byggt 1904 og í því var rekin veitingasala um tíma. Byggingin, sem er friðuð, hefur nú verið gerð upp og bíður flutnings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×