Erlent

Nýja stjórnin stefnir á fullveldi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Aksel V. Johannessen er tekinn við af Kaj Leo Johannesen sem lögmaður Færeyja.
Aksel V. Johannessen er tekinn við af Kaj Leo Johannesen sem lögmaður Færeyja. Nordicphotos/AFP
Aksel V. Johannesen, formaður Jafnaðarflokksins í Færeyjum, kynnti í gær nýja landstjórn sína, sem er samsteypustjórn með Þjóðveldi og Framsókn.

Stjórnarflokkarnir þrír hafa allir haft fullveldi Færeyja á stefnuskrá sinni og hyggjast nú gera breytingar á stjórnskipan Færeyja, sem eigi að tryggja Færeyjum fullveldi. Þetta á að bera undir atkvæði í Færeyjum ekki síðar en á árinu 2017.

Um fyrirhugaðar breytingar segir í stjórnarsáttmála nýju stjórnarinnar:

„Ný stjórnskipan á að staðfesta að Færeyingar fara með völdin í Færeyjum. Lögin eiga að staðfesta og skilgreina sjálfsákvörðunarrétt Færeyinga, þar með að allur réttur til þess að ákvarða þjóðréttarstöðu Færeyja til framtíðar liggur hjá Færeyingum.”

Jafnaðarflokkurinn sigraði í kosningum til færeyska lögþingsins, sem haldnar voru 1. september, og hlaut fjórðung atkvæða og 8 þingmenn, en Þjóðveldi hlaut fimmtung atkvæða og 7 þingmenn. Þriðji stjórnarflokkurinn er svo Framsókn, sem hlaut tvo þingmenn í kosningunum.

Saman hafa stjórnarflokkarnir þrír því 17 af 33 þingmönnum á færeyska lögþinginu.

Aksel V. Johannessen tekur við af hægri manninum Kaj Leo Johannessen, sem hefur verið lögmaður í tvö kjörtímabil samfleytt.

Varalögmaður nýju stjórnarinnar er Høgni Hoydal, sem er formaður Þjóðveldisflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×